20.8.17

FRENCH RIVIERA // PHOTO DIARY PART I


Þá erum við komum heim eftir ÆÐISLEGA viku í Suður Frakklandi eða Frönsku Rivíerunni eins og 
það er kallað líka. Eins gott og það er að vera komin heim þá er ég smá á bömmer yfir að vera ekki 
ennþá á þessum fallega stað en vá hvað það var yndislegt þarna. Ég ætla að deila fríinu aðeins með
ykkur en þarf að skipta færslunum í tvennt þar sem ég er með aðeins of mikið af myndum til þess að
sýna ykkur. Ég mæli svo með að fara í frí til Suður Frakklands en þetta er einn fallegasti staður sem 
ég hef komið á. Það er ekkert beint flug frá Íslandi til Suður Frakklands en við flugum til London
Gatwick með Icelandair og tókum svo flug þaðan til Nice með EasyJet. Við gistum á 4 stjörnu hóteli
rétt fyrir utan bæ sem heitir Saint Paul de Vence sem er í um hálftíma keyrslu frá Nice. Hótelið var
æðislegt en ég hefði viljað vera inn í Nice þar sem keyrslan var frekar löng og smá frá öllu þessu
helsta. Hótelið okkar heitir La Vague De Saint Paul.

Við lentum í Nice um klukkan fimm að degi til og byrjuðum á því að sækja bílaleigubílinn okkar. 
Við keyrðum svo á hótelið og vorum komin frekar seint þangað svo við ákváðum að koma okkur
bara fyrir og fá okkur að borða á veitingarstaðnum sem er á hótelinu. Maturinn var æðislegur og
við fórum svo bara stuttu eftir það að sofa enda vel þreytt eftir langt ferðalag. Næsta dag vöknuðum
við og keyrðum til Nice þar sem við eyddum deginum. Við röltum Promenade des Anglais (sem er
strandlengjan), fengum okkur hádegismat og kíktum svo í gamla hverfið sem var ótrúlega gaman. 
Eftir smá rölt kíktum við aftur upp á hótel og lágum við sundlaugina áður en við gerðum okkur til 
en við áttum pantað borð á Michelin stjörnu veitingarstað inn í Nice um kvöldið. Níels elskar að
borða svo þetta var smá matarferð líka en við fórum á veitingarstað sem heitir JAN og vá, það 
var svo gott. Mæli mjög með honum!


Næsta dag lá leið okkar til Cannes en sá bær var í um 45 mínútna fjarlægð frá hótelinu okkar. Ég var
ekki búin að skoða mikið um hvað væri hægt að gera og skoða í Cannes en við tókum smá rölt og
fengum okkur hádegismat. Við byrjuðum á að rölta strandlengjuna áður en við tókum svo gamla 
bæinn - Cannes var bara allt í lagi að mínu mati en samt sem áður mjög fallegur bær. Við stoppuðum
auðvitað fyrir framan kvikmyndahúsið þar sem hátíðin er alltaf haldin en svo lá leið okkar til Nice
þar sem við borðuðum kvöldmat, ég verslaði mér dálítið sérstakt sem sést á seinustu myndunum og
lenti í því allra steiktasta. Við vorum hjá Fontaine du Soleil þegar það kemur maður upp að mér og 
byrjar bara að raða fuglum á mig upp úr þurru. Áður en ég vissi af var ég komin með 4 fugla á mig
og hvað gerði Níels? Já, hann auðvitað pissaði í sig úr hlátri og horfði bara á! 


Næsta dag áttum við pantað borð á tveggja stjörnu Michelin stað sem heitir La Chevre D'Or og er
staðsettur uppi í hæðunum í þorpi á milli Nice og Monaco sem heitir Éze. Við ákváðum að taka því
rólega yfir daginn og eyddum við honum við sundlaugina á hótelinu okkar og í spainu sem var alveg
hreint yndislegt. Við klæddum okkur svo í okkar fínasta púss þar sem það er "dresscode" á staðnum
og því skylda að vera klæddur í "elegant attire". Keyrslan að veitingarstaðnum var æðisleg en næstum
alla leiðina vorum við með útsýni yfir rivíeruna. Að sjá alla smábæina, strendurnar og snekkjurnar var
eitt það fallegasta sem ég hef séð og svo skemmdi útsýnið á veitingarstaðnum alls ekki fyrir en við
sátum bara í sjokki fyrstu mínúturnar. Veitingarstaðurinn er í kastala uppi í hæðunum og gangan að
staðnum var líka gullfalleg. Maturinn var auðvitað æðislegur og mælum við mjög með þessum stað
ef þið hafið mikinn áhuga á mat og fínni matargerð.

Hluti II af ferðinni kemur inn á næstu dögum 
SHARE:

No comments

Post a Comment

xoxo

Blogger Template Created by pipdig