Hvar á ég eiginlega að byrja?! Ég er svo ótrúlega þakklát og meyr eftir gærdaginn en allar mínar
bestu konur tóku sig saman og héldu gullfallega og ótrúlega skemmtilega barnasturtu fyrir mig.
Mamma er nýkomin heim frá Spáni og ætlaði að bjóða okkur Níelsi ásamt systur minni og unnusta
hennar í mat í gærkvöldi en að sjálfsögðu var það bara smá hvít lygi til að ná mér á staðinn. Þetta
var víst búið að vera planað lengi og grunaði mig gjörsamlega ekkert en mér fannst Níels keyra þó
óvenju hægt alla leiðina til mömmu. Mér finnst svo fallegt að allir voru saman komnir, fólkið mitt
héðan og þaðan sem þekkist ekki endilega og eiga einungis mig sameiginlega, til að fagna litla
gaur og er ég ævinlega þakklát eftir gærdaginn. Ég hef alltaf sagt að ég er heppnust í heimi með allt
þetta yndislega fólk í kringum mig og get ég ekki beðið eftir að kynna litla kallinum fyrir þeim en
það er gríðarlega mikil spenningur í gangi fyrir komu hans. Þetta er fyrsta barnabarnið hjá foreldrum
mínum svo þið getið rétt svo ímyndað ykkur en það er ekki langt í næsta hjá mömmu minni og
fósturpabba þar sem systir mín á að eiga í febrúar á næsta ári og því verður stutt á milli barnanna
okkar sem er ótrúlega skemmtilegt.
Veislan var ekkert smá falleg en þegar maður á vinkonur eins og Þórunni og Gyðu þá er að
sjálfsögðu ekki sparað þegar kemur að skreytingum - þemað var hvítt, gyllt og dökkblátt með
uppáhalds blómunum mínum sem er brúðarslör, að sjálfsögðu. Það voru svo æðislegar veitingar
í boði og við eyddum kvöldinu að spjalla og gæða okkur á þeim. Ég get ekki lýst því hversu
þakklát ég er fyrir þessar yndislegu konur og fyrir daginn - ég ætla að leyfa myndunum að tala
en þær eru ansi margar ♡
Eins og ég nefndi þá skorti sko ekkert þegar kom að skreytingum og stóðu stelpurnar sig ótrúlega vel.
Það eru ekki allir svo heppnir að eiga tvær mömmur, hér er ég með konunni hans pabba sem hefur verið fósturmamma mín í meira en 20 ár og mömmu minni.
Systur mínar en við eigum sama pabba - Elva og Salka.
Eins og tvær mömmur eru ekki nóg þá lít ég á þessa til vinstri sem mömmu líka en þetta er systir mömmu minnar, við erum ótrúlega líkar og hægra megin við mig eru dætur hennar.
Ég varð að fá eina með öllum systrum mínum en ég er heldur betur rík.
Systur mínar mömmumegin - Katrín er dóttir mannsins hennar mömmu og svo eiga þau saman hana Ósk.
Það þarf varla að kynna ykkur fyrir þessum tveim.
Æskuvinkonur mínar úr Keflavík - þykir svo vænt um þessar.
Langamma mín og ömmur mínar.
No comments
Post a Comment
xoxo