28.9.18

FÆÐINGARSAGAN MÍN


Jæja, hvernig á maður eiginlega að byrja þessa sögu?! Ég persónulega elska að lesa fæðingarsögur 
hjá öðrum og las mikið af þeim á meðgöngunni svo mig langaði að deila með ykkur minni sögu,
kannski líka því litli karlinn okkar kom mjög svo óvænt og því margir forvitnir um hvað átti sér
stað. Meðgangan sjálf gekk mjög vel hjá mér fyrir utan þessa týpísku ógleði, uppköst og þreytu
á fyrstu tólf vikunum og eftir að það allt saman hætti leið mér ótrúlega vel og naut þess mjög að
vera ólétt. Mér fannst yndislegt að sjá bumbuna stækka með hverri viku sem leið þrátt fyrir að það
pössuðu engin föt og ég átti aðeins erfiðara með að gera hluti. Spennan við að verða þrjú var mikil
og naut ég þess að gera allt tilbúið fyrir komu hans í rólegheitum þar sem ég var ekki að vinna og
hafði mikinn frítíma.

Tíminn leið hratt og þann 11. september fór ég í hefðbundna skoðun hjá ljósmóður minni þar sem
þvag var stixað, blóðþrýstingur mældur, kúlan mæld og allt það sem gert er reglulega til að fylgjast
með meðgöngunni. Ég rölti yfir í heilsugæsluna í Hlíðum þar sem ég var búin að vera frekar bjúguð
dagana fyrir og datt mér í hug að smá hreyfing gæti ef til vill hjálpað til með hann. Ég var búin að
reyna allt til að minnka hann og ekkert virkaði og því nefndi ég þetta við ljósmóðurina. Strax fannst
prótein þegar hún stixaði þvagið, tveir plúsar meira að segja og hafði aldrei áður mælst neitt. Hún
mældi svo næst blóðþrýsting og bar saman við fyrri mælingar og var það mjög augljóst að hann var
hækkandi. Hún sendi mig því strax upp á Landspítala í blóðprufu en prótein í þvagi og hækkandi
blóðþrýstingur eru bæði merki um meðgöngueitrun sem skimað er eftir í hverri heimsókn. Ég man
að ég labbaði út af heilsugæslunni með knút í maganum og hringdi næstum því grátandi í Níels sem
kom um leið úr vinnunni að sækja mig til að fara með mér upp á spítala. Ég fór í blóðprufu og svo
fórum við heim en ef eitthvað myndi koma úr henni þá ætlaði ljósan mín að hringja í mig. Í svona
aðstæðum vill maður auðvitað ekki fá símtal en um kvöldið fengum við því miður símtal um að 
blóðprufan hafi ekki komið nógu vel út og að ég væri að sigla inn í meðgöngueitrun. Næsta dag
fór ég í skoðun upp á Landspítala og var ég þar annan hvern dag í riti þar sem fylgst er með
hjartslætti barnsins, samdrættavirkni í leginu, blóðþrýstingi, þvaginu og tekin ný blóðprufa til
að fylgjast með eitruninni. Ég var svo skikkuð að hvíla mig mikið en málið með meðgöngueitrun
er að hún getur snarversnað á mjög stuttum tíma og er eina ,,lækningin" við henni fæðing. Mér
fannst yndislegt hversu vel var hugsað um okkur og þetta reglulega eftirlit róaði okkur aðeins en
samt sem áður ákváðum við að klára að gera allt tilbúið. Við keyptum rúmið hans og settum það
upp, pökkuðum í spítalatöskur og daginn áður en allt saman skeði keyptum við bílstól og settum
hann í bílinn. 

Eins og ég sagði þá var ég annan hvern dag í eftirliti svo á þriðjudeginum 18. september fórum
við í vaxtarsónar til að kanna hversu stór hann væri orðinn og svo í ritið eftir á. Þá nótt svaf ég
ekki mjög vel en ég vaknaði fyrst um klukkan 4 um nóttina með túrverkjaseyðing sem leiddi
í mjóbakið og hélt ég að þetta væru bara fyrirvaraverkir. Ég reyndi að sofna en vaknaði svo um
sjö verri og tók verkjatöflu og náði að sofna þegar Níels fór í vinnuna. Ég lét ljósmæðurnar í
skoðuninni vita af þessu og samkvæmt blóðprufum var ástandið versnandi. Við fórum því 
eftir ritið einmitt að kaupa bílstólinn og ég eyddi restinni af deginum í að hvíla mig og áttum
við frekar rólegt kvöld heima við. Næsta dag eða á miðvikudeginum 19. september fór ég í
heimsókn til Þórunnar til að kíkja á gullfallegu dóttur hennar sem hún eignaðist í byrjun
mánaðarins. Við fengum okkur hádegismat heima hjá henni og áttum mjög notalegan dag
í kósý með litlunni. Á leiðinni heim kíkti ég í Ikea til að kaupa bala til að baða hann í og
fór svo heim að leggja mig. Um kvöldið var mér boðið á bloggviðburð og langaði mig að
kíkja á hann. Ég og Fanney Dóra ætluðum að kíkja saman svo ég byrjaði að gera mig til í
rólegheitunum. Á meðan ég sat að mála mig hringdi mamma í mig Facetime og vorum við
að spjalla á meðan ég gerði mig til. Á einum tímapunkti stóð ég upp til að sækja eitthvað
og mér leið eins og ég hafi pissað á mig. Mér dauðbregður og hugsa strax að ég sé að missa
vatnið en þegar ég snerti á mér löppina þar sem bleytan var sé ég að þetta er hreint blóð.
Ég segi við mömmu að ég hringi í hana eftir smá, skelli á og kalla á Níels. Honum bregður
auðvitað líka og ég hleyp inn á bað á meðan Níels hringir niður á fæðingardeild. Mér heldur
áfram að blæða ótrúlega mikið og eru allar lappirnar mínar í blóði og allt fer í smá móðu.
Við urðum bæði ótrúlega hrædd en það fyrsta sem maður hugsar í svona aðstæðum er að
eitthvað slæmt sé að gerast. Ljósmóðirin sem við töluðum við sagði okkur að hringja á 
sjúkrabíl um leið og að ég ætti að leggjast niður flöt. Það gerði ég og lá ég á gólfinu fyrir
utan baðherbergið á meðan Níels hringdi á sjúkrabíl og fann til buxur á mig þar sem hinar
voru gegnvotar af blóði. Sjúkrabíllinn er ótrúlega fljótur að koma en fyrir okkur var þetta
svo lengi að líða enda hágrét ég af áhyggjum. Níels reyndi að róa mig en ég sá í augunum 
hans hversu hræddur hann var en hann reyndi að láta mig ekki sjá það því hann vissi 
hversu hrædd ég var.

Sjúkrabíllinn fer með okkur á fæðingardeildina þar sem ég er sett í móttökuherbergi og beint 
í rit. Ferðin á spítalan var ekki löng en við búum 400 metra frá spítalanum (án gríns) en ég
grét alla leiðina þar sem ég fann engar hreyfingar. Um leið og við heyrðum sterkan og góðan
hjartslátt í ritinu leið næstum því yfir Níels og ég auðvitað grét ennþá meira - það var í lagi
með litla strákinn okkar en samt vorum við hrædd því mér hélt áfram að blæða með hverjum
samdrætti. Næst tók við lengsta bið lífs okkar en það var bara einn læknir á vakt og þar sem
ég var einungis komin 35 vikur + 1 dag þarna þurfti hún að skoða mig og var hún í aðgerð
þegar við mætum. Mér er rúllað inn á fæðingarstofu þar sem við bíðum og er ég í ritinu allan
tímann. Hjartslátturinn hans er góður og leið honum vel sem var fyrir öllu en samdrættirnir
mínir voru mjög reglulegir og með hverjum samdrætti blæddi mjög mikið. Níels hringdi í
mömmu og hún kom til okkar með mat og snarl þar sem við vorum ekki búin að borða neitt.
Hún var hjá okkur allt kvöldið en ég mátti því miður ekki borða neitt þar sem ekki var alveg
á hreinu hvað væri í gangi og hafði ég ekki borðað neitt síðan um klukkan 14:00 þann dag
svo ég var orðin ótrúlega svöng. Um klukkan 20:00 byrjaði ég að finna smá verki með 
samdráttunum og enn hélt mér áfram að blæða. Ég var auðvitað lögð inn um leið og við
mættum og man ég að ljósmóðirin sem tók á móti okkur var alltaf að segja ,,þið eruð ekkert
að fara heim". Ég bjóst við því að vera bara lögð inn til að fylgjast með mér og eitruninni
og var ég mjög ánægð að Níels greip spítalatöskurnar með svo ég var með dót með mér
á mig og barnið. Ég var ekki búin að pakka neinu fyrir Níels þar sem ég sagði alltaf að
við myndum bara gera það þegar nær dregur þar sem mig grunaði alltaf að ég þyrfti að
fara í gangsetningu þar sem eitrunin var að versna og því höfðum við smá fyrirvara. 

Biðin hélt áfram og leið tíminn varla. Loksins kemur læknirinn og fengum við þau svör
að fylgjan gæti verið að losna frá legveggnum og því blæddi mér svona. Hún skoðaði
einnig leghálsinn til að sjá hvort eitthvað væri að malla og kom þá í ljós að ég væri komin
með 3-4 í útvíkkun. Ég fékk sjokk en mig grunaði alls ekki að ég væri farin af stað þar sem
verkirnir voru bara óþægilegir en ekki vondir. Það voru vaktaskipti stuttu eftir að við fengum
þessar fréttir og og fengum við yndislegustu ljósmóður sem ég veit um. Ég hefði ekki getað
óskað mér betri ljósmóður til að taka á móti drengnum en það skiptir svo miklu máli. Klukkan
23:45 var belgurinn sprengdur. Ég mátti ennþá ekki borða neitt þar sem það var möguleiki á
keisara ef eitthvað kæmi upp á svo þið getið rétt svo ímyndað ykkur hversu svöng ég var á
þessum tímapunkti. Hlutirnir gerðust mjög hratt eftir að belgurinn var sprengdur og byrjuðu
verkirnir að harðna. Ég hef alltaf sagt að ég ætlaði 100% að fá mér mænudeyfingu en ég 
ákvað að byrja á gasinu og svo bara sjá hvernig hlutirnir þróuðust. Gasið fannst mér geggjað
og hjálpaði það mér að einbeita mér að önduninni sem ég hafði lært í þeim fáu jógatímum
sem ég fór í á meðgöngunni. Frekar en að anda út með munninum eins og okkur er kennt þar
þá öskraði ég og fannst mér það hjálpa mjög. Ég var með besta stuðningsteymi sem ég veit
um í fæðingunni en Níels og mamma voru viðstödd og vissu þau nákvæmlega hvað ég vildi.
Níels var duglegur að nudda á mér tærnar eða mjóbakið í hríðunum sem var ótrúlega gott 
og mamma hélt köldum þvottapoka á enninu mínu. Bara að hafa þau hjá mér róaði mig og
er ég svo þakklát fyrir þau. Eins og ég sagði þá gerðust hlutirnir mjög hratt og á um 3 tímum
fór ég frá 3 í útvíkkun í 9. Áður en ég vissi fann ég mikla þrýstingsþörf og mátti ég byrja að
rembast. Mér fannst mun erfiðara að rembast en að ganga í gegnum hríðarnar og sérstaklega
því í næstseinustu hríðinni var höfuðið komið ágætlega mikið út og hríðin datt niður. Ljósan
þurfti því að halda vel við á meðan við biðum eftir næstu hríð. Ég vildi ekkert meira en að fá
aðra hríð þar sem þetta var mjög óþægilegt og var þetta eflaust í eitt af fáu skiptum sem konur
óska eftir og bíða eftir hríð. Loksins kom hríðin og litli karlinn skaust í heiminn klukkan 03:22
þann 20. september eftir 35 vikna + 2 daga meðgöngu. 

Við lágum inni í fjóra daga eftir fæðinguna og er ég ævinlega þakklát yndislega starfsfólkinu
á Landspítalanum fyrir að hugsa svona vel um okkur. Seinustu dagar hafa verið yndislegir en
við erum bara þrjú heima að kynnast og hafa það notalegt. Litli kall er allur að braggast og er
byrjaður að bæta vel á sig sem róar mömmuhjartað mitt en fyrstu fimm sólahringana var hann
á stífu matarprógrammi þar sem hann kom svona mikið fyrir tímann og var því skilgreindur sem
síðfyrirburi. Lífið er svo sannarlega óútreiknanlegt og erum við að springa úr ást og hamingju 
SHARE:

No comments

Post a Comment

xoxo

Blogger Template Created by pipdig