Jæja, ég lofaði ykkur góðri færslu um Köben og hér er hún. Ég eyddi ansi miklum tíma í borginni
þegar ég var yngri svo það var löngu komin tími til að fara aftur en ég hafði ekki farið í um 10 ár
held ég og Níels hafði aldrei farið áður. Við vorum í tvær nætur en höfðum samtals um þrjá daga
sem mér fannst alveg vera nóg (sérstaklega þar sem veðrið var ekkert spes, ég myndi vilja vera
lengur um vor eða sumar þegar veðrið er æðislegt og meira hægt að gera).
Við flugum út á föstudagsmorgni með Icelandair (að sjálfsögðu) og vorum komin upp á hótel um
klukkan hálf tvö á dönskum tíma. Þar sem ferðin var skyndiákvörðun hjá okkur þá pöntuðum við
okkur hótel í gegnum Hotwire en það er ótrúlega sniðugt að nýta sér þá síðu. Hótelið var ekki dýrt
og við fengum hótelið First Hotel Twentyseven sem var æðislegt - staðsetningin var algjör snilld en
það tók okkur 2 mínútur að labba á Strikið og svo var herbergið mjög fínt.
Við (eða ég haha) versluðum á Strikinu en þar var ég mest að kíkja í & Other Stories, Illum, Illum
Bolighus og Saint Laurent (í töskuleit sem misheppnaðist). Við vorum ekki að versla mikið en að
sjálfsögðu þurfti ég aðeins að kíkja í nokkrar búðir - þar eru líka H&M, Monki, Bik Bok, Gina
Tricot, COS, HAY og fleiri æðislegar búðir. Það sem stóð upp úr hjá okkur voru allir æðislegu
veitingarstaðirnir en ég ætla að segja ykkur frá nokkrum sem við fórum á og mælum með.
Eftir að við tjékkuðum okkur inn á hótelið og skiluðum af okkur dótinu þá vorum við alveg
glorhungruð og við kíktum því á stað sem Þórunn Ívars vinkona var búin að mæla með. Hann
heitir PS Bar and Grill og er rétt hjá Strikinu og vá, við vorum alveg í himnaríki. Ég mæli alveg
100% með þessum stað ef þú ert í Köben og næst langar mig að kíkja um kvöld. Við deildum
nokkrum smáréttum og verð ég að mæla með grillaða geitarostinum - hann var það góður að við
pöntuðum okkur annan skammt þegar fyrsti kláraðist!
Á laugardeginum fórum við á matarmarkað sem ég er búin að heyra mikið um og ansi margir
mældu með honum - mér finnst það ekki skrýtið þar sem þetta var eflaust það skemmtilegasta
sem við gerðum og þið hefðuð átt að sjá Níels þarna, hann var í himnaríki allan tímann. Þetta er
semsagt Copenhagen Street Food markaðurinn og ef þið eruð í Köben þá verðið þið að fara. Það
er svo skemmtileg stemmning þarna og við röltum á milli bása og prófuðum smá af hverju.
Níels var búinn að panta borð á þessum veitingarstað áður en við fórum (hann gerði það liggur við
áður en ég pantaði flugið út, hann var svo spenntur haha) en hann heitir Kokkeriet. Staðurinn er
með tvær Michelin stjörnur og kemur það alls ekkert á óvart - vá! Maturinn þarna var æðislegur
en við fórum í smakkseðil sem innihélt 15 rétti. Það var allt gott en þetta er mjög fínn staður svo
það er gott að hafa í huga að hann er mjög dýr - það var samt alveg þess virði þar sem þetta var
algjör upplifun. Þessi staður er alveg must fyrir matarperra!
Ég vona að þetta hafi hjálpað eitthvað ef þú ert á leið til Köben eða að plana ferð þangað - við
fórum einnig á stað sem heitir Madklubben Steak og var hann æðislegur líka en að sjálfsögðu
gleymdi ég að taka myndir. Ef þið hafið eitthverjar spurningar þá spyrjið þið bara ♡
No comments
Post a Comment
xoxo